Brúðarkjólar

Ég fór inn á bland áðan og kíkti á fatnað, það var aðallega verið að selja brúðarkjóla þar inni. Ætli fólk sé mikið að rífast um hver fái kjólinn þegar það skilur?

Mánudagur

Er alveg sátt við mánudaga nema umferðina á morgnanna.

Föstudagur

Mér leiðist, það gerist aldrei neitt, ég missi meira að segja af jarðskjálfta ef hann verður.

Gönguferð

Ég fór í gönguferð í sumar, það hafa allir farið í gönguferð, en þessi gönguferð var eins og ein meðganga. Ég hafði 9 mánuði til að undirbúa mig, það var hringt í mig og ég spurð hvort ég vildi fara með í gönguferð. 9 mánuður er rosalega langur tími svo ég sagði að sjálfsögðu já, ég var í engu formi en mér sýndist á tíma áætluninni að ég hefði nægan tíma til að undirbúa mig fyrir þessa gönguferð.
Fyrstu 3 mánuðirnir voru auðveldir, ólíkt öðrum meðgöngum hjá mér og ég hvíldist vel. Mánuði 3-6 leið mér áfram mjög vel, ég fann lítið fyrir þessari ákvörðun og líkamlega leið mér bara vel. Ég var farin að segja fólki frá þessari ákvörðun minni og leið ágætlega með hana. Fólk var farið að spyrja mig hvort ég væri með eitthvað æfingaplan og farin að undirbúa mig eitthvað fyrir gönguferðina.
Ég var ekkert farin að huga að því enda ennþá vetur og allt vorið og sumarið eftir.
Á 7 mánuði var ég farin að velta undirbúningi aðeins fyrir mér, en það voru enn svona 2-3 mánuðir til stefnu, fólk var enn að spyrja hvernig undirbúningur gengi og ég sagði að þetta væri allt í góðum málum og ég væri fljót að koma mér í form.
Þegar 2 mánuðir voru til stefna ákvað ég að prófa eina ferð uppá Esjuna, á leiðinni niður var mér illt í hnénu og ég ákvað að ég þyrfti að hvíla aðeins hnéið áður en ég færi aftur að hreyfa mig.
Næsti mánuður leið og ég setti upp hvert æfingarprógramið í huganum og byrjaði hvern morgun með fögrum fyrirheitum en taldi þó að ég hefði enn nægan tíma.
Á 8 mánuði var næsta gönguferð, uppá Kirkjufell. Leiðin uppá fjallið gekk framar vonum og ég taldi að þetta myndi nú ekki verða mikið mál og kannski væri þetta óþarfa stress á fólki í kringum mig varðandi þjálfunina. Á niðurleiðinni gargaði hnéið á mér til að ég tæki eftir því. Ég ákvað að láta sem ég heyrði ekki í því og hljóp niður og lét eins og ég hefði aldrei fundið neitt til.
Síðustu vikurnar helltist svo yfir mig tilfinningaflóðið, hvað var ég búin að koma mér útí, var aftur snúið, myndi ég lifa þetta af, ætti ég að vera gunga og hætta við þetta allt saman.
Spurningarflóðið jókst varðandi æfingarplanið mitt, ég krossaði fingur undir borði og sagði að allt gengi vel, ég hefði gengið nokkrum sinnum í sumar og ég væri alveg tilbúin í þetta.
Kvíðinn og spennan jókst hjá mér með hverjum deginum, allar afsakanir til að komast hjá þessari gönguferð flugu í gegnum hausinn á mér en ef ég sagði þær upphátt þá hljómuðu þær hjákátlegar. Ég varð að taka þátt, það var orðið of seint að hætta við.
Ég vissi hvaða dagsetning var á ferðinni og síðustu dagana reyndi ég að hugsa sem allra minnst um ferðina, bara að slaka á, þá var ég líka að fara eftir ráðleggingum. Það átti víst að æfa stíft í nokkrar vikur og slaka svo á síðustu vikuna fyrir gönguna. Loksins gat ég slakað á með góðri samvisku, það væri náttúrulega mesta vitleysa að byrja í hörku þjálfun viku fyrir brottför.
Að lokum rann svo upp dagurinn. Stærsta lægð síðustu ára fór yfir landið, ég sá framá að ferðinni yrði seinkað, en það er bara svipað og með aðrar meðgöngur hjá mér, það er áætlaður dagur og svo bið í nokkra daga. Mér fannst ágætt að ganga fram yfir í þessu tilfelli. En einhverjir tóku þá ákvörðun að eingöngu ætti að fresta ferðinni um nokkra klukkutíma. Sem þýddi í þessu tilfelli að lagt yrði af stað seinni partinn og komið í hús um miðja nótt.

Nú var þetta farið að minna óþarflega mikið á meðgöngurnar mínar. Á öllum meðgöngnunum hef ég farið af stað seinni part eða að kvöldi til og eytt svo nóttinni í hríðar, verki og tilheyrandi kvalir fram undir morgun.
Við lögðum af stað klukkan hálf þrjú, ég horði á bátinn og varð óglatt, nákvæmlega sama velgja og hrjáir mig fyrstu 3 mánuði meðgöngu. Bátsferðin gekk þó vonum framar og engin uppköst áttu sér stað og loksins klukkan 4 var lagt af stað í gönguferðina. Ég horfði á eftir bátnum í grenjandi rigningunni, hann hvarf inní þokuna og þarna vissi ég að nú var öll von úti um að hætta við. Eina leiðin var upp skarðið og ganga að skálanum, 17 km.
Bjartsýnin og gleðin var enn ríkjandi á meðan samferðamanna minna. Farangurinn var enn þurr, fæturnir voru þurrir og aðrir líkamspartar voru á heildina litið nokkuð þurrir.

Fyrsta pása var klukkutíma síðar, farangur var enn þurr, fæturnir voru enn þurrir, allt annað var orðið gegnblautt. Nærbuxurnar voru líklega þurrar í flestum tilfellum.

Hálf tíma síðar var næsta stopp, áður en haldið var uppí skarðið. Rigningin lamdi á okkur og læddi sér ofan í skóna en fólk var enn bjartsýnt á að sokkarnir myndu sleppa.
Áfram var haldið og hálftíma síðar var orðið ljóst að ekkert myndi sleppa undan rigningunni, ekki farangur, ekki nærbuxur, ekki sokkar, allt yrði gegndrepa á næsta hálftímanaum. Eftir tveggja tíma göngu var hópurinn kominn upp skarðið og flestir bjartsýnir á að þetta væri líklega versta veðrið í ferðinni. Þegar upp var komið kom í ljós að þetta var lognið á undan storminum og uppá heiðinni lækkaði hitastigið í 0 gráður og rokið jókst um mörg vindstig.
Þarna gekk hópurinn minn áfram eins og lömb á leið til slátrunnar, allir í halarófu, enginn sagði neitt, einstaka sinnum reyndi einhver að kreista fram brandara til að peppa upp mannskapinn.

Kílómetrarnir voru um 7, a.m.k. 10 km eftir, svipuð tilfinning og þegar ljósmóðirin segir mér að útvíkkun sé komin í 4 en ég hélt að hún væri í 9.
Eftirsjáin og vonleysið að ná tökunum á manni, fæðingin ekki hálfnuð, verkirnir orðnir verri en maður hélt þeir yrði og ekki nokkur leið að hætta við.

En áfram var gengið í stórgrýti, mýrlendi, snjóskafli öllu öðru en venjulegum göngustíg.
Svo hlaut að koma að því, ég rann, fann hvernig fóturinn beyglaðist undan mér og öklinn bólgnaði. Ég rak upp öskur, svipað hátt öskur og þegar ég fæ vatnsbóludeyfinguna mína í hverri fæðingu, af einhverjum óskiljanlegum ástæðum þá vel ég alltaf að fá þá deyfingu.
Að fá vatnsbóludeyfinguna og sársaukann við þá deyfingu er það versta í hverri fæðingu.
En þarna lá ég í stórgrýtinu, ofan á rennblautum bakpokanum og horfði á öll andlitin fyrir ofan mig sem greinilega höfðu öll miklar áhyggjur af því að ég hefði fótbrotnað.
Á meðan ég lá, hugsaði ég um það hvort ég ætti að þykjast vera fótbrotin og vissi að þá myndi einhverjir bjóðast til að sitja með mér á meðan beðið yrði eftir að björgunarsveitin myndi sækja mig, það væru nokkrir klukkutímar í roki, rigningi og stöku sinnum snjókommu en að lokum myndi þyrlan koma og sækja mig og vefja mig mjúku og hlýju teppi. Líklega yrði ég komin í mjúkt og hlýtt rúm á Ísafirði nokkrum klukkutímum seinna.

Þessi kostur væri líklega svipaður eins og að gefast upp og grenja það í gegn að sóttur yrðir kvensjúkdómalæknir sem skæri mig upp og næði í barnið og ég sæi fram á að kvalirnar við þessa fæðingu væru að verða búnar í bili.
En þá mundi ég líka það að það versta í hverri fæðingu er að fá vatnsbóludeyfinguna og þar sem ég var nú þegar búin að snúa mig og komin yfir mesta sársaukann varðandi öklann þá væri ég orðin meira en hálfnuð með þessa fæðingu. Ég ákvað því að létta af áhyggjum samferðafólksins míns og sagði þeim að ég væri alveg örugglega ekki brotin en ég hefði bara snúið mig illa.

Ég stóð því næst upp, skóflaði í mig nokkrum verkjapillum og hélt göngunni áfram, en voru a.m.k. 4 tímar eftir eða hátt í 10 km.
Ég gekk áfram, nú var ég dragbíturinn í ferðinni, fólk skiptist á að ganga aftast með mér og athuga hvort ég væri í lagi. Ég bölvaði í hljóði, skildi ekki hvernig mér hafði dottið þetta í hug, að taka þá ákvörðun að leggja í langferð í vondu veðri og vondu færi. Nákvæmlega sama tilfinnig og helltist yfir mig í öll þau 4 skipti sem ég var rúmlega hálfnuð með fæðingar barnanna minna.
Orkan alveg búin og það eina sem heldur manni gangandi er að vita til þess að í meira en 99% tilfella lifa konur fæðinguna af og ekki eina fæðingu heldur margar fæðingar. Og áfram hélt ég, kílómeter fyrir kílómeter. Ég heyrði útundan mér að allir voru að tala um en eitt skarð, ég áttaði mig ekki á því að enn eitt skarð þýddi enn ein brekka. Ein brekka upp þýðir líka ein brekka niður.
Sem betur fer þá hugsaði ég ekki útí þetta heldur gekk áfram. Ég gekk upp skarðið, 300 metrar uppá við, á einhvern ótrúlegan hátt þá komust allir upp og þar á meðal ég.
Að lokum komum við upp og þá vissi ég að eingöngu 2-3 km væru eftir og ég hélt í þetta litla hálmstrá, þarna var ég orðin nokkuð viss um að ég lifði þetta af og í bjartsýni minni langaði mig að hlaupa í skálann.
En þá byrjaði hnéið, ég missti orkuna aftur, dældi í mig verkja lyfjum, það var ekkert sem virkaði, engin vatnsbóludeyfing, engin mænudeyfing, engin deyfing sem er leyfð þegar fæðingin er komin svona langt á veg. Ég varð bara að þrauka.
Loksins sá ég húsið, hnéið á mér var rautt af sársauka, öklinn á hinum fætinum var tvöfaldur af bólgu og mig langaði í hvorugan fótinn að stíga.
En áfram gekk hópurinn, þeir hressustu hlupu í húsið, klukkan orðin 2 og á eftir þeim höltruðum gamalmenninn og ég. Útvíkkun var loksins komin í 10 og ég sá fram á að fæðingin myndi taka enda. Ég kæmist lifandi á áfangastað og myndi leggjast í mjúkt rúm í rennandi blautan svefnpokann minn. Ég bað ekki um meira.
Tilfinningin var yndisleg, hamingjan og stoltið gífurlegt, tilfinningin uppá heiðinni var gleymd og grafin, sársaukinn í hnéinu á niðurleiðinni var horfinn, ekkert var eftir til minningar um sársaukann annað en smá bólginn ökkli. Ég gat ekki beðið eftir að komast í næstu gönguferð, alveg eins og með fæðinguna, eftir 2 daga er allur sársauki gleymdur og eingöngu hamingju tilfinningin eftir.


Sumir dagar eru leiðinlegri en aðrir dagar

Og þetta er einn af þeim dögum.

Heimsókn að austan

Ég er búin að vera með vinkonu í heimsókn í nokkra daga. Við enduðum heimsóknina með nokkrum áfengisglösum niðrí bæ á laugardagskvöldi ómálaðar, illa greiddar í flatbotna skóm og dúnúlpu. Döðruðum við karlmenn og konur af öllum stærðum og gerðum og næsta morgun þegar vinkonan spyrði hvort þetta væri meira hún eða konan sem byggi fyrir austan þá varð einhverjum að orði "líklega ertu með stóran púka inní þér sem ekki er gott að næra of mikið" og eftir það var henni skutlað í flugvélina. Frábær helgi að baki.

Spennandi líf

Eftir eina bloggfærsluna mína um spennandi líf langaði mig til að mæla hvort líf mitt sem normal manneskja sé mjög spennandi. Liður í þeim mælingum er að setja myndir inn á facebook síðuna mína, pósta á facebook því sem ég var að gera og jafnvel að segja fólki hvað ég var að borða.
Ég er ekki frá því að þetta skili einhverju og verð því að taka í burtu hroka minn gagnvart fólki sem er alltaf að blaðra um allt sem það er að gera. Það virðist vera sem svo að ef maður tali nógu mikið um það sem maður er að gera, taki myndir af því, deili því með öðrum að þá öðlist það líf og spennu.
Líklega er þetta eitthvað sem maðurinn minn er stundum að kvarta yfir þegar hann segir mér að ég sé ekki nægilega dugleg við að tjá mig.
Ég sem hélt ég væri svo dugleg við að gefa af mér.
Þarf að endurskoða einhverja fordóma hjá mér.

Yngsta barnið

Yngsta barninu mínu finnst frekar leiðinlegt að láta skamma sig. Um daginn komum við fjölskyldan heim á sama tíma. Sú litla gerir bara svona eins og henni er eðlilegt og lætur peysuna og skóna bara á sinn stað sem er mitt á gólfið í anddyrinu. Pabbinn var frekar óhress með þetta og nefnir þetta kurteisislega við hana og endar með að segja að það sé "alveg óþolandi þegar hlutirnir eru á miðju gólfinu og alltaf fyrir manni þegar maður gengur um".

Sú stutta var ekki alveg sammála honum og sagði honum jafn kurteisislega að það væri "alveg óþolandi að eiga svona óþolandi pabba"  hún var frekar fljótt að átta sig á því að hún hafði verið ókurteis og bætti því við í skyndi að það væri allt í lagi þar sem hann væri ekki óþolandi í dag, bara stundum.

 


Hversdagslegt líf mitt

Ég er ofur normal manneskja með ofur normal líf og ofur normal fjölskyldu. Ef það væru myndir í orðabókinni af ofurnormal manneskju, þá væri mynd af mér þar!

Dæmi um það hvers vegna ég er ofurnormal

- ég hlusta á venjulega "hittara" í útvarpinu

- uppáhalds söngvarar og hljómsveitir er það sem vinsælast er þá og þegar.

- Mér finnst Toyota allt í lagi bílar eins og allir aðrir Íslendingar

- Ég læt telja mér trú um allskonar vitleysu eins og megnið af þjóðinni gerir.

- Ég er gift, átti börn fyrst og gifti mig svo, á öll börnin með sama manninum og við vinnum bara 8-17 eins og normalt er.

- Börnin mín eru öll frekar normal en einstök á sinn hátt.

 

 


Þessi þráður af www.er.is bjargaði alveg deginum í dag

Af hverju mega mínir þræðir ekki fá að vera í friði lengur.Opna öll innlegg
Tímaþjófur | 29 jan. '12, kl: 18:39:36 | Alls sótt: 414 | Svara | www.ER.is | 0
Þetta er í annað sinn sem maður fær slæm viðbrögð frá ER.is.

En ok ég leita þá í annað og skrái mig út en þetta er bara óþolandi og ekki bjóðandi.

Ég mun aldrei leitast eftir þjónustu né vera í viðskiptum á bland.is í framtíðinni.

En ég er ekki endilega að falast eftir kynlífsþjónustu á blandinu.

Ég er í vinkonuleit af því að ég sá að eiin notaði ER.is til að auglýsa eftir vinkonum. Hennar þráður fær enn að vera í friði. Af hverju? Af því að hún er lesbía og þið líka?

Eru þið allar rauðhærðar, feitar og frekar lesbíur sem eru inná ER.is?

Ég er afar sár og vonsvikinn núna. Þið eruð allar svo vondar mig hér. Ég skal láta mig hverfa burt af blandinu.

Þið fáið allavega mín lélegustu meðmæli sem þið eigi skilið frá mér.

Fuss og sveiattan.

Ég vona að djöfullinn hirði Blandið ykkar enda sökkar þessi dónalegi og ljóti kvenrembuspjallvefur svo mikið núna.

Farið öll svo öll til helvítis og rotnið þar!!!

Ég ætla ekki að láta blandið eyðileggja mitt einmanna líf. Ég fer bara að leita að annari síðu þar sem ég mæti ekki svona frekum kerlingum einsog ykkur sem vilja ráða yfir öllu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Sigrún Þorsteinsdóttir

Höfundur

Sigrún
Sigrún

Blogg, blogg, blogg

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband