Aðdáandi

Ég á mér aðdáanda, hann stór, feitur og afspyrnuleiðinlegur. Hann er tengdur einni vinkonu minni og á konu.

Það er alltaf gaman að eiga aðdáendur og fá einhverskonar viðurkenningu á eigin ágæti, sama þótt maður viti að viðkomandi aðili segi örugglega það sama við þó nokkrar aðrar konur.  En þegar maður má ekki birtast á vefmiðlinum facebook.com án þess að hann sé búinn að segja "hæ hæ" eftir innan við mínútu þá getur það orðið þreytandi.

Það furðulegasta er samt að ég lét vinkonu mína hafa afrit af samtali sem ég átti við hann, samtal sem hún fór svo með til vinkonu sinnar sem vinkonan fór svo með beint til hans. Ég vissi allan tímann hver yrði endastöðin fyrir þetta umrædda samtal og var bara alveg sátt við það og hélt hann myndi nú hætta að stalka mig á netinu. Það leið svona vika þangað til hann vildi ræða við mig og spyrja hvort ég væri fúl útí hann. Ég sagðist nú ekkert vera það en mér þætti ekki viðeigandi að hann væri stanslaust að daðra við mig (m.ö.o "VILTU HÆTTA AÐ VERA ALLTAF AÐ REYNA VIÐ MIG") ég hélt þetta væri einhvern veginn augljóst. En sumir eru augljóslega mun tregari en aðrir.

Ég er svo sem ekki í vandræðum með að fjarlægja hann af vinalistanum. Ég hélt bara að það væri nóg fyrir hann að ég kom útprentun af samtalinu okkar til konunnar hans. Og ég var eiginlega búin að láta hann vita að mér væri ekki treystandi og vildi að hann léti mig í friði. Líklega best að eyða honum.


Fasteignasalar

Að öllu jöfnu þá er ég mjög umburðarlynd og æðrulaus manneskja. Ég læt fátt fara í taugarnar á mér og ef það gerir það, þá get ég yfirleitt haft gaman af því í leiðinni.

En ég næ ekki umburðarlyndinu fyrir fasteignasölum. Ég held að fasteignasalar hljóti að vera umorðun á setningunni "þjófnaður þar sem fórnarlambið veit að það er rænt en getur ekkert við því gert" þar sem fasteignasalar eru heldur ekki vitlausir og hafa því náð að búa til nógu flóknar reglur svo hinn venjulegi almúgi getur ekkert sagt þegar fasteignasalinn rukkar hann um nokkrar milljónir fyrir að selja eignina sína.

Hvernig er hægt að réttlæta það að sala á eign kosti frá 700.000 og uppí nokkrar milljónir og hver er eiginlega munurinn á því fyrir fasteignasala að selja eign á 10 milljónir og svo 100 milljónir. Hvers vegna á fasteignasalinn skilið að fá 10 sinnum hærri laun fyrir að selja dýrari eignina.

Ætli það sé notaður flottari pappír fyrir dýrari eigninga, eða mæta þeir í dýrari fatnaði þegar verið er að skrifa undir kaupsamning fyrir 100 milljónir króna.


Samkynhneigð

Ég var að velta fyrir mér um daginn, ef þú ert samkynhneigður, giftist á Íslandi og ferð aftur til þíns heimalands þar sem hjónabönd samkynhneigðra er ekki viðurkennt, ertu þá bara giftur í sumum löndum og öðrum ekki?

Börn og aðrir minna þroskaðir menn

Núna er barnalandstímabilinu mínu endanlega lokið, ég seldi eldhúsborðið mitt og ætla að halda því sem ég keypti (sem er samt ekki draumaborðið) en þar sem minn tími er liðinn þá verð ég bara að sætta mig við "nýja" borðið sem var keypt á kolaporti internetsins.

En hvað um það, það sem mér fannst merkilegast af öllu var eiginlega maðurinn sem keypti það af mér. Hann var nefnilega að leita að borði fyrir 8 MANNS. Hvað er eiginlega í gangi! Hver ákveður það að hann þurfi að gefa jóla og afmælisgjafir til 8 afkomanda og síðar meir þeirra afkomanda. Saman áttu þau hjónin 3 úr fyrra bandi (1 sem bjó heima og 2 helgarbörn) og svo komu 3 börn sem þau áttu sameiginlega fædd árin 2008, 2009 og 2010. 3 börn á 3 árum, þetta er geðveiki.

Hann er ekki sá eini sem ég þekki, það er hellingur af fólki sem er að eiga svona mikið af börnum, saman og í sundur, lausaleik og í hjónabandi. Ég held við verðum að fyrirgefa þessum körlum okkar þegar einn og einn afmælisdagur dettur úr minninu í framtíðinni.


Að kaupa og selja á barnalandi.

Ég er búin að festast inná barnaland að undanförnu af einhverri meðvirkni, einhver sagði mér að það væri hægt að finna allt á barnalandi og mig vantaði hjól fyrir elstu stelpuna mína.

Það var engum ofsögum sagt að það er hægt að finna allt á barnalandi. Þetta er eiginlega eins og að vera kominn í kolaport internetsins, allskonar drasl sem hægt er að finna þarna.

Mér finnst mjög leiðinlegt í búðum og fer helst ekki hvorki til að skoða né versla en samt verð ég að viðurkenna að það var alltaf viss sjarmi að fara í Kolaportið, það var svona sérstök upplifun að fara þarna inn, þetta var svona útlanda stemning þar sem maður þekkti svona markaði frá útlöndum og Kolaportið minnir á einhvern útimarkað í útlöndum.

Mað barnalandi var öllum sjarma kippt út, það er einfaldlega ekkert eftir sem getur hugsanlega verið sjarmerandi eða skemmtilegt við að versla gamla hluti frá gömlu fólki.

Held ég sé komin í frí frá sölusíðum internetsins og nýti tíma minn í eitthvað gagnlegra.


Hvað vil ég verða þegar ég er orðin stór

Ég er orðin 35 ára gömul með 4 börn, 1 mann, 1 hús, 2 bíla og 1 hund. Ég er eiginlega komin með allan pakkann sem gert er ráð fyrir að maður sé kominn með á þessum aldri. En ég get ekki fundið út hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór.

Á sínum tíma ráfaði ég í KHÍ, sem er mér en óskiljanlegt þar sem mér leiðast börn. Því næst tók ég 1 ár í stærðfræði þar sem ég hélt að unglingar væru skemmtilegri ef þeir væru komnir í framhaldsskóla. Eftir þá ákvörðun ákvað ég að verða rík og fór í kerfisfræði í 1 ár, en komst að því að þá yrði ég eins og bifvélavirki, ef tölva bilaði einhversstaðar þá hélt fólk að mér þætti gaman að laga þær. Eins og ég hefði einhvern áhuga á veikum tölvum.

Einnig komst ég að því að mér leiðast tölvur jafn mikið og börn svo eiginlega var jafn undarlegt að ég fór í tölvunarfræði eins og í KHÍ á sínum tíma. Ég vinn að vísu í hugbúnaðarfyrirtæki í dag og líkar mjög vel í því starfi, svo einhvern veginn rambaði ég í rétt fyrirtæki.

Samt sem áður get ég engan veginn fundið út hvað ég vil verða þegar ég er orðin stór, svo ég held bara áfram að stækka þangað til ég veit hvað mig langar til að verða.


Um bloggið

Sigrún Þorsteinsdóttir

Höfundur

Sigrún
Sigrún

Blogg, blogg, blogg

Ágúst 2010
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband